Hvammstangi
Hvammstangi er þéttasti byggðakjarni í Vestur-Húnaþingi. Hér er þjónustumiðstöð fyrir bændabýlin í héraðinu. Verslun hefur verið á Hvammstanga síðan 1895. Verslunarminjasafn er niður við höfnina og þar má sjá hvernig krambúðir voru á árum áður. Höfnin er góð og aðal veiðin hér er rækjur og grásleppa. Léttur iðnaður er stundaður á Hvammstanga þar á meðal er prjónastofa, ostaframleiðsla og silfursmíði.
Selasetur var opnað í júní 2006 og er í húsi verslunar Sigurðar Pálmasonar sem reist var 1926. Í Selasetrinu má fræðast í máli og myndum um seli og selalátur. Stærstu selalátur landsins eru á Vatnsnesi ekki langt frá Hvammstanga. Hvammstangakirkja var vígð 21. júlí 1957, en hún var hönnuð af Guðjóni Samúelssyni. Kirkjusmiður var Snorri Jóhannesson smiður á Hvammstanga.
Kirkjan stendur ofarlega í þorpinu við Kirkjuveg. Sunnan kirkjunnar liðast Syrði-Hvammsá í gegnum þorpið. Gamla kirkjan er í umsjá Þjóðminjasafnsins. Hjá henni stendur eina starfhæfa vatnsmylla landsins.